Samkvæmt heimildum Vísis eru konurnar meðlimir í samtökunum No Borders og voru þær að mótmæla því að verið værið að vísa nígeríska hælisleitandanum Eze Okafor úr landi en samtökin telja brottvísun hans ólöglega.
Sjá einnig: Flúði Boko Haram en er neitað um hæli á Íslandi
Hér að neðan má sjá myndband af atburðinum þar sem konurnar tvær grátbiðja farþega vélarinnar að standa upp til þess að koma megi í veg fyrir að vélin taki í loftið, og þar með að fresta brottvísun Okafor.
„Ef þið standið öll upp þá fer flugvélin ekki. Það er verið að flytja mann ólöglega úr land til Nígeríu. Hann situr hér í vélinni og ef þið standið öll upp getur vélin ekki farið,“ segir önnur konan.
„Þetta er tækifæri til að sýna að við erum manneskjur og að við trúum á mannréttindi,“ heyrist svo áður en að flugfreyja krefst þess að konurnar setjist niður svo að flugvélin geti tekið á loft.
Svo virðist sem að konurnar hafi fengið dræmar undirtektir við beiðni sinni.
Vélin hélt svo sína leið til Stokkhólms klukkan 09.50 eftir að búið var að handtaka og fjarlægja konurnar tvær úr vélinni.
Mótmæltu brottvísun Okafor í gær
Okafor hefur verið á Íslandi í fjögur ár en hann hafði sótt um hæli í Svíþjóð áður en hann kom hingað. Íslensk stjórnvöld fara eftir Dyflinnar-reglugerðinni og var Okafor sendur aftur til Svíþjóðar í dag.
Fái hann synjun í Svíþjóð er hugsanlegt að hann verði sendur aftur til Nígeríu. Okafor segir að þar sé líf hans í hættu vegna Boko Haram.
Á þriðja tug manna mættu fyrir utan lögreglustöðina við Hverfisgötu í gær til þess að mótmæla brottrekstri Nígeríu mannsins Eze Okafor