Fótbolti

Skotarnir áttu aldrei séns eftir að stelpurnar okkar sáu þetta myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir skoraði á móti Skotum og Glódís Perla Viggósdóttir steig ekki feilspor í vörninni.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir skoraði á móti Skotum og Glódís Perla Viggósdóttir steig ekki feilspor í vörninni. Mynd/Fésbókarsíða KSÍ
Íslenska kvennalandsliðið hefur sjaldan komið eins vel undirbúið til leiks og örugglega aldrei spilað jafnvel í jafnmikilvægum leik og í Skotlandi á dögum.

Í úrslitaleik riðilsins á milli tveggja liða sem höfðu ekki tapað stigi í riðlinum átti annað liðið aldrei möguleika.

Íslensku þjálfararnir, Freyr Alexandersson og Ásmundur Haraldsson, lögðu leikinn frábærlega upp, bæði taktískt en einnig andlega. Stelpurnar okkar voru grimmar, einbeittar og áræðnar á móti Skotunum sem sáu aldrei til sólar.

Ásmundur Haraldsson, aðstoðarþjálfari íslenska liðsins, setti saman frábært myndband sem stelpurnar horfðu á fyrir leikinn á móti Skotlandi.

Ásmundur hefur sett þetta myndband inn á Youtube og það er afar vel heppnað. Það er ekkert skrýtið að Skotarnir hafi aldrei séns eftir að stelpurnar okkar sáu þetta myndband.

Ásmundur vísar þar í íslensku náttúruna, söguna og lykilorð íslenska hópsins og tvinnar þetta allt saman á mjög skemmtilegan hátt.

Við erum að tala um gæsahúð, tár, þjóðarstolt, hjartahlýju og allan pakkann en það er hægt að sjá myndbandið hér fyrir neðan.

Íslensku stelpurnar verða aftur á ferðinni í kvöld þar sem sigur á Makedóníu mun skila stelpunum okkar inn á Evrópumót í þriðja sinn en kvennalandsliðið var einnig með á EM í Finnlandi 2009 og EM í Svíþjóð 2013.

Íslenska liðið er með fullt hús á toppnum, hefur skorað 21 mark í 5 leikjum og er ekki enn búið að fá á sig mark. Það verður fylgst vel með leiknum í kvöld hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×