Handbolti

Geir: Landsliðið ekki á leið upp brekkuna núna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Geir Sveinsson hélt sinn fyrsta blaðamannafund á Íslandi í dag.
Geir Sveinsson hélt sinn fyrsta blaðamannafund á Íslandi í dag. vísir/hanna
Snorri Steinn Guðjónsson og Alexander Petersson eru stærstu nöfnin sem vantar í 22 manna leikmannahóp íslenska karlalandsliðsins í handbolta sem mætir Portúgal heima og að heiman um miðjan mánuðinn en undir er farseðill á HM í Frakklandi á næsta ári.

„Það er ekkert launungarmál að þessir leikir skipta okkur gríðarlega miklu máli. Við viljum komast til Frakklands og til þess að komast þangað þurfum við að vinna Portúgal í þessum tveimur leikjum,“ segir Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari, í viðtali við íþróttadeild 365.

Sjá einnig:Alexander gæti verið búinn að spila sinn síðasta landsleik

Geir tók við liðinu eftir Evrópumótið í Póllandi þar sem íslenska liðið stóð sig ekki vel annað stórmótið í röð. Mikil vinna er framundan hjá Geir en hvernig hefur hann notað tímann síðan hann tók við?

Geir tók synina með í sólarbíltúr út á Granda þar sem blaðamananfundurinn var haldinn.vísir/hanna
Meiri stöðugleika

„Ég hef verið að skoða landsliðið sjálft og hvað það hefur verið að gera eins og leikina í Póllandi. Svo hef ég verið að skoða Portúgal og einnig jarðveginn hérna heima. Ég fylgdist með úrslitakeppninni og var að skoða þann efnivið og þá framtíð sem er hér til staðar.“

Eftir að ná fimmta sæti á EM í Danmörku 2014 hafa síðustu tvö stórmót verið mikil vonbrigði. Kröfurnar á liðið eru miklar og Geir fagnar því en það er stórt verkefni að koma íslenska liðinu aftur í fremstu röð.

„Miðað við síðasta mót er augljóst að við erum ekki á leið upp brekkuna. Það er bara þannig. Sú er staðan. Það er af hinu góða að kröfurnar eru miklar. Við þurfum á því að halda og það heldur okkur á tánum. Ef við viljum vera í fremstu röð þurfum við allir að leggjast á eitt með það,“ segir Geir.

„Ef við lítum á síðasta mót sem var EM í Póllandi þar sáum við virkilega góðan leik gegn Noregi sem er með gott lið. Eftir það komu tveir leikir sem voru ekki eins góðir og það er svona helst það sem hefur vantað. Það þarf að halda meiri stöðugleika. Við þurfum að einblína á það.“

Ítarlegt viðtal við Geir má sjá í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×