Enski boltinn

Golden State vann þrátt fyrir sögulegan dapran leik hjá Curry

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry og Klay Thompson.
Stephen Curry og Klay Thompson. Vísir/Getty
Stephen Curry fékk fullt hús sem mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar í körfubolta en það var þó ekki að sjá í nótt þegar fyrsti leikur lokaúrslitanna fóru fram enda bauð Curry upp á sögulega dapra frammistöðu.  

Golden State Warriors vann 15 stiga sigur á Cleveland Cavaliers, 104-89, í leik eitt en þennan sigur verður seint hægt að skrifa á hetju frammistöðu Stephen Curry.

Stephen Curry endaði leikinn með aðeins 11 stig, hann tapaði 5 boltum og hitti aðeins úr 4 af 15 skotum sínum. Golden State tapaði meira segja þeim hluta leiksins sem hann var inná og Curry tók ekki eitt vítaskot á þeim 36 mínútum sem hann spilaði.

Tölfræðingar ESPN voru fljótir að setja frammistöðu Steph í sögulegt samhengi. Þetta var nefnilega fjórða lægsta stigaskor besta leikmanns deildarinnar í úrslitaeinvígi um titilinn.

Það eru aðeins þeir Bill Russell og Wilt Chamberlain sem hafa skorað minna í lokaúrslitum eftir að hafa verið kosnir bestir á sama tímabili.

Bill Russell skoraði aðeins 5 stig í öðrum leik Boston Celtics og St. Louis Hawks í lokaúrslitum 1961 en hann endaði einvígið með því að vinna einvígið og skila meðaltölum upp á 17,6 stig og 28,8 fráköst í leik.

Wilt Chamberlain skoraði tvisvar bara 10 stig fyrir Philadelphia 76ers í lokaúrslitunum á móti San Francisco Warriors árið 1967 en líkt og Russell þá varð hann NBA-meistari. Chamberlain var með 17,7 stig, 28,5 fráköst og 6,8 stoðsendingar að meðaltali í lokaúrslitunum sem Philadelphia 76ers vann 4-2.

Stephen Curry hafði skorað yfir 30 stig í síðustu þremur leikjum á undan leiknum í nótt og í þeim hitti hann meðal annars úr 16 af 34 þriggja stiga skotum sínum eða 47 prósent skotanna. Curry var með 32,7 stig og 7,7 stoðsendingar að meðaltali í leikjunum þar sem Golden State liðið gróf sig upp úr 3-1 holu á móti Oklahoma City Thunder.

Þeir félagar Stephen Curry og Klay Thompson skoruðu aðeins 20 stig saman í leiknum og klikkuðu á 19 af 27 skotum sínum. Það eru því ekki góðar fréttir fyrir leikmenn Cleveland Cavaliers að þeir geti ekki unnið Golden State þegar bestu skyttur Warriors-liðsins eru ískaldar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×