Innlent

Landhelgisgæslan hafði afskipti af tveimur skipverjum undir áhrifum

Birta Svavarsdóttir skrifar
Áhöfn flugvélar Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, varð fyrst vör við handfærabátinn í gær.
Áhöfn flugvélar Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, varð fyrst vör við handfærabátinn í gær. vísir/vilhelm
Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar hafði nú síðdegis afskipti af handfærabát sem var við veiðar undan Ströndum og hafði verið vísað til næstu hafnar af Landhelgisgæslunni. Voru skipverjar bátsins, tveir menn færðir til sýnatöku vegna gruns um að vera undir áhrifum við stjórn bátsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni nú í kvöld.

Landhelgisgæslan hafði fyrst afskipti af bátnum í gær þegar flugvél Landhelgisgæslunnar kom að bátnum í eftirlitsferð sinni. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hafði orðið bátsins vör í eftirlitskerfum sínum og séð að ekki virtist allt með felldu varðandi haffæri og lögskráningu bátsins. Voru skipverjum bátsins þegar gefin fyrirmæli um að halda í land en þrátt fyrir ítrekuð fyrirmæli Landhelgisgæslunnar sinntu skipverjar bátsins ekki þeim fyrirmælum.

Því var þyrla Landhelgisgæslunnar send á Norðurfjörð á Ströndum í dag, og í samstarfi við lögregluna á Vestfjörðum var tekið á móti bátnum er hann kom til hafnar um fimmleytið í dag. Vaknaði samstundis grunur um að skipverjar væru ekki allsgáðir og því var ákveðið að flytja þá með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Hólmavíkur til sýnatöku.

Landhelgisgæslan og lögreglan vinna nú að rannsókn málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×