Innlent

Farþegaflugvél með bilaðan hreyfil lendir á Keflavíkurflugvelli

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vélin hefur hringsólað um og yfir flugvellinum í tæpan klukkutíma til að losa sig við eldsneyti áður en hún lendir.
Vélin hefur hringsólað um og yfir flugvellinum í tæpan klukkutíma til að losa sig við eldsneyti áður en hún lendir.
Flugvél af gerðinni Boeing 767 lendir innan skamms á Keflavíkurflugvelli en tilkynnt var um vélarbilun fyrr í dag. Vélin er frá flugfélaginu WestJet og var á leiðinni frá London til Edmonton. Um borð eru 258 farþegar.

Fyrst var greint frá málinu á vef RÚV en í samtali við Vísi segir Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi Isavia að upp hafi komið tilkynning um bilun í vinstri hreyfli. Þá hafi flugstjórinn tekið ákvörðun um að lenda á Keflavíkurflugvelli.

Guðni segir að flughæfni vélarinnar sé ekki skert en hún hefur nú hringsólað um og yfir flugvellinum í tæpan klukkutíma til að losa sig við eldsneyti áður en hún lendir.

Viðbúnaðaráætlun á Keflavíkurflugvelli hefur verið virkjuð og er hættustigið metið sem miðstig. Þá eru næstu viðbragðsaðilar boðaðir að sögn Guðna, það er viðbragðsaðilar á flugvellinum sjálfum og svo á Suðurnesjum. Áætlaður lendingartími vélarinnar í Keflavík er 14.30.

Uppfært klukkan 15:30

Flugvélin lenti á Keflavíkurflugvelli klukkan 14:40. Hættustigi fyrir flugvöllinn hefur verið aflýst samkvæmt tilkynningu frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×