Körfubolti

Hörður Axel: Lið eru hætt að vanmeta okkur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson var viss þegar hann var spurður að því hvort hann hafi orðið fyrir vonbrigðum með riðilinn sem íslenska körfuboltalandsliðið lenti í á EM á næsta ári.

„Þetta er erfiðara en ég bjóst við en kannski ekki vonbrigði,“ sagði Hörður Axel sem er genginn í raðir Keflavíkur á nýjan leik.

Þrátt fyrir að Ísland hafi lent í erfiðum riðli, með Póllandi, Grikklandi, Frakklandi, Finnlandi og Slóveníu, er Hörður Axel nokkuð brattur og segir að íslenska liðið verði klárt í slaginn þegar stóra stundin rennur upp.

„Við verðum alltaf klárir þegar við byrjun að spila. Þetta er svipaður riðill og seinast,“ sagði Hörður Axel. Hann segir að það sé liðin tíð að lið vanmeti íslenska landsliðið.

„Ég held að lið beri meiri virðingu fyrir okkur. Það er öðruvísi að spila á móti okkur. Ég held það sé liðin tíð að lið taki sigri gegn okkur sem sjálfsögðum hlut.“

Hörður Axel segist fullur tilhlökkunar fyrir EM sem stendur yfir frá 31. ágúst til 17. september á næsta ári.

„Það skemmtilegasta sem maður gerir er að spila með landsliðinu, hvað þá á stórmóti. Að fara á EM annað skiptið í röð er mjög sérstakt og eitthvað sem við eigum að vera mjög stoltir af, sama hvernig riðilinn er,“ sagði Hörður Axel.


Tengdar fréttir

Hörður Axel á heimleið á ný

Hörður Axel Vilhjálmsson er á heimleið en hann staðfesti það á Facebook-síðu sinni í kvöld. Hann mun samkvæmt heimildum íþróttadeildar semja við Keflavík og leika með liðinu gegn Haukum á föstudaginn.

Logi: Fengum flest góðu liðanna

Logi Gunnarsson fylgdist með drættinum fyrir EM 2017 í höfuðstöðvum KKÍ í dag ásamt félögum sínum í íslenska körfuboltalandsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×