Veðurfarsrannsóknir við Hvassahraun munu hefjast á næstunni þegar veðurfarsskilyrði henta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu Icelandair sem mun sjá um rannsóknirnar.
Þar segir að rannsóknirnar séu gerðar í framhaldi af starfi Rögnunefndarinnar svokölluðu en í skýrslu nefndarinnar hafi verið lagt til að flugvallarskilyrði í Hvassahrauni verði fullkönnuð með nauðsynlegum rannsóknum.
Icelandair mun nýta tækjakost sinn við rannsóknir á veðurfari í Hvassahrauni en flugprófanir munu fara þannig fram að flugvélum frá Icelandair, sem ekki eru í áætlunarflugi, verður flogið eftir þeim aðflugsferlum sem eru fyrirséðir á nýju mögulegu flugvallarstæði.
Tækjabúnaður um borð í vélunum mun nema og skrá mismunandi veðuraðstæður á svæðinu. Gert er ráð fyrir að yfirflugið standi með hléum næstu vikur og mánuði og tekur þá við úrvinnslu úr rannsóknarvinnunni.
Icelandair hefur veðurfarsrannsóknir í Hvassahrauni

Tengdar fréttir

Rögnunefnd hefur lokið störfum: Lestu skýrsluna í heild sinni
Hvassahraun var talið besti staðurinn undir nýjan innanlandsflugvöll.