Handbolti

Skelfilegur lokaleikur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Axel Stefánsson hefur verk að vinna með íslenska landsliðið.
Axel Stefánsson hefur verk að vinna með íslenska landsliðið. vísir/stefán
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta fór illa að ráði sínu gegn því makedónska í riðli 3 í Þórshöfn í undankeppni HM 2017 í gær.

Ísland vann fyrstu tvo leiki sína í riðlinum, gegn Austurríki og Færeyjum, og mátti tapa leiknum í gær með sex mörkum. En Íslensku stelpurnar náðu sér ekki á strik gegn Makedóníu og töpuðu með sjö mörkum, 20-27.

„Það er ótrúlega svekkjandi að ná ekki þeim markmiðum sem við settum okkur,“ sagði Axel Stefánsson landsliðsþjálfari í samtali við Fréttablaðið. „Við náðum ekki upp þeim góða varnarleik sem við náðum í fyrstu tveimur leikjunum. Þetta var barátta og við náðum aldrei að koma almennilega til baka.“

Arna Sif Pálsdóttir minnkaði muninn í 20-26 þegar mínúta var til leiksloka en Makedóníukonur áttu síðustu sóknina og nýttu hana til að skora sitt 27. mark. „Það var mjög grátlegt að sjá hann fara inn. Við þurfum að læra af þessu.

„Það eru tvö ár í næsta stóra möguleika á stórmóti. Við þurfum að skipuleggja okkur fyrir það,“ sagði Axel sem kvaðst nokkuð sáttur með fyrstu tvo leikina í Færeyjum. Hann segir þó að liðið þurfi að vinna meira í sóknarleiknum en það taki tíma.

„Það vantar tímasetningar og takt í sóknarleikinn. Þær eru svolítið staðar,“ sagði Axel sem verður með leikmenn íslenska liðsins á æfingum fram á fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×