Handbolti

Skelfilegur lokaleikur og Ísland úr leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórey Rósa Stefánsdóttir var besti leikmaður íslenska liðsins í Færeyjum um helgina.
Þórey Rósa Stefánsdóttir var besti leikmaður íslenska liðsins í Færeyjum um helgina. vísir/valli
Ísland kemst væntanlega ekki í umspil um sæti á HM 2017 í handbolta eftir sjö marka tap, 20-27, fyrir Makedóníu í lokaleik liðsins í undanriðli 3 í dag.

Ísland mátti tapa leiknum með sex marka mun en í dag fór allt úrskeiðis. Íslenska liðið þarf núna að treysta á að Færeyjar nái stigi af Austurríki til að eiga möguleika á að komast áfram. Líkurnar á því eru þó sáralitlar.

Íslenska liðið vann fyrstu tvo leiki sína í riðlinum en spilaði engan veginn nógu vel í leiknum í dag.

Íslenska vörnin var míglek í byrjun og eftir átta mínútur var staðan 2-7, Makedóníu í vil. Ísland vann sig þó inn í leikinn og í hálfleik var staðan 11-15, Makedóníu í vil.

Makedónar skoruðu fyrstu þrjú mörkin í seinni hálfleik og eftir það var róðurinn þungur.

Þegar tvær mínútur voru til leiksloka komst Makedónía í 18-26. Axel Stefánsson tók þá leikhlé og íslenska liðið svaraði með tveimur mörkum í röð. Makedónía átti hins vegar síðustu sóknina og Elena Gjeorgjievska skoraði 27. mark makedónska liðsins alveg undir lokin.

Þórey Rósa Stefánsdóttir og Karen Knútsdóttir skoruðu fimm mörk hvor fyrir Ísland í dag.

Uppfært 19:30

Austurríki vann Færeyjar og Ísland kemst því ekki áfram.

Mörk Íslands:

Karen Knútsdóttir 5/3, Þórey Rósa Stefánsdóttir 5, Rut Jónsdóttir 2, Sunna Jónsdóttir 2, Birna Berg Haraldsdóttir 2, Arna Sif Pálsdóttir 1, Steinunn Hansdóttir 1, Hildigunnur Einarsdóttir 1, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×