Handbolti

Halldór Jóhann: Getum keppt um alla bikara sem eru í boði

Smári Jökull Jónsson í Hertz-höllinni skrifar
Ásbjörn Friðriksson skoraði 5 mörk fyrir FH og stjórnaði sóknarleiknum af röggsemi.
Ásbjörn Friðriksson skoraði 5 mörk fyrir FH og stjórnaði sóknarleiknum af röggsemi. vísir/stefán
Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari FH var að sjálfsögðu ánægður eftir að hans menn tryggðu sér sigurinn í Flugfélags Íslands bikarnum í handknattleik með stórsigri á Aftureldingu.

"Þetta var töluvert auðveldara en ég átti von á. Varnarleikurinn hjá okkur í byrjun leiks skapaði þessa níu eða tíu marka forystu sem við héldum út leikinn. Þeir voru ekki góðir í dag og það gerði okkur auðvelt fyrir,“ sagði Halldór Jóhann þegar Vísir ræddi við hann að leik loknum.

FH vann Hauka í undanúrslitunum í gær en Halldór sagði það ekki hafa verið erfitt að rífa sína menn af stað eftir strembinn leik í gær.

„Nei alls ekki. Við settum þetta upp sem eitt verkefni, þessi deildarbikar er bara tveir dagar og við viljum virða þessa keppni. Úrslitaleikur er úrslitaleikur og það var Evrópusæti í boði og auðvitað bikar. Við vildum vinna þetta og ég held við höfum sýnt það með mikillli baráttu og öguðum leik.“

„Við vorum ekkert að fara fram úr okkur þrátt fyrir að ná þessari forystu. Það heppnaðist líka mikið þar sem þeir voru daprir á köflum og við nýttum okkur það,“ bætti Halldór við.

FH lék feykivel í dag og er til alls líklegt í baráttunni eftir áramótin en nú tekur við langt hlé vegna Heimsmeistaramótsins í handknattleik sem fram fer í Frakklandi í janúar.

„Þetta ætti að auka sjálfstraustið í liðinu og sýna það að við getum keppt um alla bikara sem eru í boði. Ég held að leikmenn viti það og við erum búnir að ræða það mikið í vetur að þegar við erum upp á okkar besta þá getum við gert ansi góða hluti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×