Skoðun

Afstaða Íslands hafði áhrif – Stórmerkur dómur Evrópudómstólsins

Stefán Pálsson skrifar

Þann 21. desember sl. felldi Evrópudómstóllinn veigamikinn dóm varðandi viðskiptasamning Marokkó og Evrópusambandsins. Dómurinn er á þá leið að samningurinn nái ekki til varnings sem framleiddur er í hinu hernumda landi Vestur-Sahara. Þetta er stórsigur fyrir Saharawi-þjóðina, sem berst gegn hernámi lands síns en að sama skapi mikið áfall fyrir stjórnvöld í Marokkó.



Vestur-Sahara hefur verið kallað síðasta nýlendan í Afríku, en Marokkó lagði landið undir sig með hervaldi eftir að spænskum yfirráðum lauk þar árið 1975. Frá þeim tíma hefur gegndarlaus rányrkja á auðlindum Vestur-Sahara átt sér stað, auk þess sem Marokkóstjórn hefur reynt að fá alþjóðasamfélagið til að viðurkenna landvinninga sína. Hernámið er skýlaust brot á alþjóðalögum og fer fram í trássi við samþykktir Sameinuðu þjóðanna, en hernaðarlegir og efnahagslegir hagsmunir stórþjóðanna, einkum Frakka, hefur orðið til þess að Marokkó hefur fengið að fara sínu fram.



Saharawi-fólkið, hinir réttmætu eigendur landsins, hefur lagt mikla áherslu á að fríverslunarsamningar Marokkó við önnur ríki geti ekki náð til hernuminna svæða og um það var tekist í dómsmáli þessu. Fyrir okkur Íslendinga er áhugavert og um leið gleðilegt að vita að meðal þeirra gagna sem lágu til grundvallar í málflutningnum var yfirlýsing utanríkisráðherra Íslands í umræðum á Alþingi fyrr á þessu ári. Þar staðfesti Lilja Dögg Alfreðsdóttir þann skilning Íslands að viðskiptasamningar við Marokkó tækju ekki til hernumins lands.



Gott er að sjá svo áþreifanlegt dæmi um að afstaða Íslands geti haft bein áhrif til góðs fyrir baráttu valdalausrar smáþjóðar. Alþingi hefur falið utanríkisráðherra að beita sér í málefnum Vestur-Sahara og tryggja að sjálfsákvörðunarréttur íbúanna verði tryggður. Vonandi verður haldið áfram á þeirri braut.



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×