Innlent

Þingsalur sprakk úr hlátri þegar Pawel þakkaði Steingrími fyrir ríkisborgararéttinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Alþingi samþykkti á þingfundi í gærkvöldi að veita þrjátíu og einum íslenskan ríkisborgararétt á grundvelli frumvarps allsherjar- og menntamálanefndar. Fólkið sem fær ríkisborgararétt kemur meðal annars frá Súdan, Gana, Bólivíu, Haítí og Kósóvó.

Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, nýtti tækifærið í umræðu um ríkisborgararéttinn og rifjaði upp tímamót í hans lífi fyrir tæpum tveimur áratugum. 

„Ég fékk ásamt mömmu minni ríkisborgararétt með þessum hætti fyrir u.þ.b. nítján og hálfu ári síðan,“ sagði Pawel sem flutti til Íslands frá Póllandi.

Iðrast ekki ákvörðunarinnar

„Það var einn þingmaður hér í salnum sem tók þátt í þeim gjörningi,“ sagði Pawel og leit á forseta Alþingis, reynsluboltann og aldursforsetann Steingrím J. Sigfússon. 

„Ég þakka hæstvirtum forseta fyrir það. Honum er það eflaust í fersku minni,“ sagði Pawel og þingsalur veltist um af hlátri.

„Ég vona að hann sjái ekki alltof mikið eftir þeirri ákvörðun sinni.“

Pawel nýtti tækifærið og óskaði nýjum ríkisborgurum til hamingju með daginn.

Steingrímur sagðist að sjálfsögðu muna vel eftir þessu, var greinilega að spauga hvað það varðar, en alls ekki iðrast þeirrar ákvörðunar að veita mæðginunum ríkisborgararéttinn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×