Innlent

Seinkun á öllu flugi Icelandair í kvöld

Veðrið hefur sett samgöngur úr skorðum.
Veðrið hefur sett samgöngur úr skorðum. vísir/vilhelm
Öllum flugferðum Icelandair í kvöld hefur verið seinkað en ekki er búist við að fresta þurfi flugi, segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. Veður á að taka að lægja um klukkan 22 í kvöld og þá ætti flug að komast aftur í eðlilegt horf.

„Það verður seinkun á öllu flugi á eftir myndi ég halda. Það hefur engu flugi verið aflýst en ein vél þurfti að lenda á Akureyri í dag og hún bíður þar ennþá,“ segir Guðjón.

„Þetta hefur gengið ágætlega hjá okkur í dag. Þetta snýst mest um hvernig hægt er að vinna á jörðu niðri við afgreiðslu véla og þess háttar en það er bara gert hlé á slíkri vinnu útaf veðrinu,“ bætir hann við.

Samgöngur hafa farið út skorðum vegna óveðursins í dag. Flugfélag Íslands ráðgerði til að mynda að fljúga fimm sinnum frá Ísafirði vegna tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður, en uppbókað var í öll sæti þaðan í dag.

Til þess að koma sem flestum til Reykjavíkur áður en veðrið skall á var þremur flugferðum flýtt. Seinni partinn í dag var flugi til og frá Ísafirði aflýst.

Athuga á með flug til Egilsstaða og Akureyrar klukkan 19.15 í kvöld en flugfélagið Ernir hefur aflýst ferðum sínum til Vestmannaeyja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×