Handbolti

Landsliðsmaður sækir vangoldin laun til Framara

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnar Freyr Arnarsson, landsliðsmaður í handbolta, hefur stefnt uppeldisfélagi sínu Fram vegna vangoldinna launa en fyrirtaka í málinu fer fram á þriðjudaginn í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Arnar fékk illa greitt á síðustu leiktíð sinni hjá Fram áður en hann hélt út í atvinnumennsku til Kristianstad síðasta sumar.

Hann rifti samningi sínum við félagið undir lok síðustu leiktíðar en samt fengu Framarar greiðslu frá sænska félaginu fyrir línumanninn.

Ákvæði í samningi Arnars segir að hann hafi átt að fá hlutdeild af kaupverðinu en hana fékk Arnar ekki, segir faðir hans, Arnar Þór Sævarsson. Reyna mun á þessa riftun fyrir dómstólum.

„Við erum bara að sækja peningana sem Fram skuldar. Svo hefur þessi hagsmunagæsla Arnars kostað sitt. Þetta eru engar risa upphæðir en við höfum bara verið harðir,“ segir Arnar Þór.

„Við erum bara að reyna að senda skilboð inn í félagið og hreyfinguna um að samninga verði að virða. Krakkarnir okkar gera sína fyrstu samninga voða spenntir en svo eru þeir ekki virtir. Það er ekki gott.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×