Farþegar sem urðu strandaglópar á Miami eftir að flug þeirra með WOW Air féll niður munu komast heim á morgun þökk sé leiguflugvélum á vegum fyrirtækisins. Þetta staðfestir Svana Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi flugfélagsins við Vísi.
Flugið átti að fara frá Miami til Keflavíkur í gærkvöldi en var fellt niður vegna bilunar í einni af þremur Airbus 330-þotum flugfélagsins. Alls áttu 317 farþegar bókað flug með vélinni og fengu þeir tilkynningu samdægurs um að flugið hefði verið fellt niður.
„Við verðum með tvær vélar heim frá Miami á morgun. Við sumsé leigðum eina breiðþotu og verðum auk þess með Airbus A321 vél á vegum okkar fyrir þá farþegar sem vilja fara heim á morgun.
Við erum í þessum töluðu að hafa samband við farþega og bjóða upp á þennan möguleika, þeim sem vilja fara heim á morgun.“
Daníel Berg Grétarsson er einn þeirra farþega sem hafa verið strandaglópar á Miami og segir hann í samtali við Vísi að það hafi verið mikill léttir að heyra að málin hafi verið leyst með þessum hætti.
„Þeir hringdu í okkur og létu okkur vita af þessu í dag. Það var ekkert sérlega spennandi tilhugsun að vera fastur hérna á þessum stað í viku, einhverju flugvallarhóteli.
Þetta hefði verið svolítið eins og að vera í stofufangelsi og það voru ekki skilyrði sem maður var að fara að sætta sig við.“
