Golf

Curry keppir á atvinnumannamóti í golfi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stephen Curry mundar golfkylfuna.
Stephen Curry mundar golfkylfuna. Vísir/Getty
Stephen Curry er ekki aðeins einn besti körfuboltamaður heims heldur öflugur kylfingur. Hann fær nú að reyna sig gegn atvinnumönnum í íþróttinni.

Curry fékk boð um að taka þátt á móti á Web.com-mótaröðinni, næststerkustu atvinnumannamótaröð Bandaríkjanna í golfi, á eftir PGA-mótaröðinni.

Curry verður á meðal keppenda á Ellie Mae Classic-mótinu sem fer fram í ágúst og mun þar Curry etja kappi við atvinnumenn í golfi sem eru allir að reyna að vinna sér inn þátttökurétt á PGA-mótaröðinni.

„Ég hlakka til að verða mér vonandi ekki til skammar,“ sagði Curry sem er með 2,2 í forgjöf. „Golf hefur verið ástríða hjá mér og það er sannkallaður draumur að rætast að taka þátt í sterku móti með atvinnumönnum.“

Curry varð í vor meistari með Golden State Warriors í annað skipti á ferlinum en mótið fer fram skammt frá heimavelli Golden State í Oakland.

Þess má geta að Jerry Rice, einn allra besti útherji í sögu NFL-deildarinnar, keppti þrívegis á þessu sama móti en komst aldrei í gegnum niðurskurðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×