Skoðun

Epli og appelsínur

Ólafur Arnarson skrifar
Finnur Árnason, forstjóri Haga, sendir mér tóninn í viðtali við Markaðinn í Fréttablaðinu á miðvikudaginn. Hann virðist telja mig hafa tekið upp hanskann fyrir Costco og verið ósanngjarnan í garð Bónuss. Þetta get ég ekki fallist á. Ég hef einungis tekið upp hanskann fyrir íslenska neytendur. Alvarlegar ásakanir hafa komið fram frá öðrum en mér um að í Bónus sé stundað að lækka verð rétt á meðan verðkannanir standa yfir sem og að hækka verð þegar mikið er að gera í verslununum. Ég lýsti þeirri skoðun minni að alvarlegt væri ef rétt væri.

RÚV, í samvinnu við ASÍ, birti nýlega verðkönnun sem sýndi að ódýrasta innkaupakarfan í Bónus er ódýrari en ódýrasta karfa í Costco, án tillits til tegundar eða gæða. Á þetta benti ég í viðtölum við fjölmiðla. Ég veit ekki betur en að gagnrýni m.a. frá Högum á verðkannanir ASÍ hafi einmitt beinst að því að ekki sé verið að bera saman sambærilegar vörur. Að verið sé að bera saman epli og appelsínur en ekki epli og epli.

Finnur virðist blanda saman ummælum mínum um aðskilda hluti og túlka sem einn og sama hlutinn. Með því er hann í raun að bera saman epli og appelsínur, sem aldrei er gott. Ég vona að við Finnur séum sammála um að betra er að bera jafnan saman epli og epli.

Finnur lætur að því liggja að með ummælum mínum hafi ég sakað Jóhannes heitinn í Bónus, sem var mér mjög kær, um blekkingar gagnvart neytendum. Það myndi ég aldrei gera. Jóhannes var einhver besti bandamaður sem íslenskir neytendur hafa átt.

Costco færir nýja samkeppni inn á íslenskan dagvörumarkað og lækkar vöruverð rétt eins og Hagkaup gerði 1959 og Bónus 1989. Því fagna ég fyrir hönd íslenskra neytenda. Fákeppni á dagvörumarkaði hefur fært háar fjárhæðir úr vösum neytenda í vasa eigenda innflutnings- og smásölufyrirtækja. Öflug og heilbrigð samkeppni er besti vinur neytenda.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×