Skoðun

Íslenskur ömurleiki er öryrkjans veruleiki

Þuríður Harpa Sigurðardóttir skrifar
Það er ekki af öfund sem ég sest niður og set orð á blað, mér er einfaldlega ofboðið. Á sama tíma og kjararáð hrúgar afturvirkum launahækkunum á emættismenn og forstjóra ríkisstofnana og skilanefndir klessa fáránlegum bónusgreiðslum á stjórnendur eignarhaldsfélags LBI, já og sumir fá tugi milljóna bónusa bara fyrir að hafa mætt í vinnu, lepur hinn almenni örorkulífeyrisþegi dauðann úr skel. Hvar er sómatilfinning þeirra sem þiggja endalausar viðbætur á laun sín sem voru þó feykihá fyrir og þeirra sem útdeila þeim? Ég gef lítið fyrir ábyrgðastöðu þessa fólks, við vitum í dag að umtöluð ábyrgð er lítil eða engin þegar á hólminn er komið. Það er með ólíkindum hvað kjararáð er taktlaust, eða er þetta í raun stjórnlaust sjálftaka í skjóli þeirra sem peningavöldin hafa?

Við erum smáþjóð 340.000 manns, er okkur algjörlega fyrirmunað að sýna sanngirni, að samfélagi okkar sé ekki stýrt þannig að þeir ríku verða ríkari og þeir fátækari verði fátækari. Ég var þeirrar skoðunar einu sinni að við ættum besta heilbrigðiskerfi í heimi, ég var veruleikafirrt, og mötuð á fagurgala stjórnvalda, því heilbrigðiskerfi okkar er gloppótt og glufurnar stórar. Þegar fólk virkilega lendir í heilsufarsáföllum sem snúa lífi þess algjörlega á hvolf, þá er tryggingin lítil. 

Örorkustimpillinn er dýru verði keyptur, því líf á örorkubótum sem stjórnvöld skammta fólki eru svo smánarlega lág að ekki hægt að lifa af þeim. Að hafa húsaskjól er ekki sjálfgefið í dag og því miður hafa margar fjölskyldur og einstaklingar í okkar samfélagi ekki þak yfir höfuðið og biðlistar öryrkja eftir húsnæði lengjast stöðugt.

Kannski að tími sé til komin að sett verði á laggirnar kjararáð sem úrskurði um og ákveði launakjör þeirra sem minnst hafa í þessu samfélagi, öryrkja og ellilífeyrisþega, ég get ekki séð að stjórnvöldum sé treystandi til þeirra ákvarðana. 

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, varaformaður Sjálfsbjargar lsh.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×