Innlent

Flýtir í undirbúningi orsök flugslyss á Vatnsleysuströnd

Atli Ísleifsson skrifar
Um var að ræða kennsluflugvél Flugakademíu Keilis og var hún af gerðinni Diamond DA-20.
Um var að ræða kennsluflugvél Flugakademíu Keilis og var hún af gerðinni Diamond DA-20. Rannsóknarnefnd samgönguslysa
Flýtir í undirbúningi og rangur aflestur eldsneytismælis kennsluflugvélarinnar TF-KFB eru talin hafa gert það að verkum að vélin nauðlenti á golfvellinum á Vatnsleysuströnd þann 29. júní 2014.

Þetta kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa (RNSA). Flugkennari hlaut minniháttar áverka á höfði þegar flugvélin lenti á hvolfi og plastkúpull yfir stjórnklefanum brotnaði.

Um var að ræða vél Flugakademíu Keilis og var hún af gerðinni Diamond DA-20. Henni var flogið frá Keflavíkurflugvelli en ætlunin var að flúga til flugvallarins á Hellu.

Rannsókn á vettvangi leiddi í ljós að ekkert eldsneyti var í eldsneytisgeymi flugvélarinnar á slysstað og hafi eldsneytisskorturinn leitt til að vélin missti afl á flugi.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa
Rangur aflestur

Í skýrslunni segir að flugnemi og flugkennari hafi talið ranglega að tankur vélarinnar hafi verið tæplega hálffullur og með nægilega mikið eldsneyti til að komast á áfangastað. Aflesturinn hafi hins vegar verið rangur og hafi um fjórðungur tanksins verið raunverulega með eldsneyti þegar vélin tók á loft.

„RNSA telur hugsanlegt að það að flugkennarinn skoðaði eldsneytisstöðuna á eldsneytismælistikunni úr fjarlægð, úr hægra sæti flugvélarinnar, hafi haft áhrif á rangan aflestur flugkennarans. Ennfremur telur RNSA að það að flugneminn hafði sagt að eldsneytisgeymirinn væri rúmlega hálfur, þá hafi það skapað væntingar sem hafi haft áhrif á aflestur flugkennarans,“ segir í skýrslunni.

Flugkennarans sagði við nefndina að hann hefði fyrir reglu að athuga alltaf stöðuna á eldsneyti og olíu sjálfur, þótt það væri engin regla hjá flugskólanum um að gera það. „Flugkennarinn var hins vegar seinn í þetta flug og því skoðaði hann einungis eldsneytisstöðuna eftir að hafa sest í hægra sætið í flugvélinni, þegar flugneminn sýndi eldsneytisstöðuna á eldsneytismælstikunni þar sem hann stóð vinstra megin við flugvélina við eldsneytisáfyllingaropið,“ segir í skýrslunni.

Skýrslu nefndarinnar er að finna að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×