Umfjöllun: Ísland - Grikkland 61-90 | Erfitt tap í fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson og Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifa
Ísland mátti þola 29 stiga tap í fyrsta leik sínum á EM í körfubolta, Eurobasket, þegar strákarnir okkar mættu sterku liði Grikkja í Helsinki í dag.

Eftir slæma byrjun þar sem Grikkir komust 29-10 forystu eftir ellefu mínútur tóku okkar menn til höndinni og svöruðu fyrir sig með 17-4 spretti. Haukur Helgi Pálsson og Jón Arnór Stefánsson fóru mikinn á þessum kafla, auk þess sem að Kristófer Acox átti fína innkomu.

Staðan í hálfleik var 37-33 en strákarnir okkar komust hins vegar aldrei aftur í sama gír og í öðrum leikhluta. Grikkir skoruðu fyrstu níu stig síðari hálfleiksins og tóku öll völd á leiknum. Þeir sigu fram úr, hægt og rólega, og litu aldrei um öxl.

Haukur Helgi var stigahæstur í íslenska liðinu með 21 stig en hann var sá eini sem komst í tveggja stafa tölu. Martin, Kristófer, Hlynur, Hörður Axel og Jón Arnór skoruðu allir sjö stig í leiknum.

Þriggja stiga nýting Íslands í leiknum var hörmuleg en aðeins tvö skot af 23 fóru niður, bæði í fyrri hálfleik. Grikkir höfðu einnig yfirburði í frákastabaráttunni og unnu hana 46-32.

Íslenska liðið var þar að auki afar mistækt og var með alls 22 tapaða bolta í leiknum. Gegn jafn góðu liði og Grikklandi er það dýrt, enda refsuðu Grikkir ítrekað fyrir mistök íslenska liðsins.

Þó svo að íslenska liðið hafi sýnt inni á milli að liðið geti vel staðið í sterkum liðum er ljóst að það á mikið inni fyrir leikinn gegn Pólverjum á laugardag. Er það leikur sem Ísland á góðan möguleika á að vinna, ef það hittir á góðan dag.

Stig Íslands: Haukur Helgi Pálsson 21, Martin Hermannsson 7, Kristófer Acox 7, Hlynur Bæringsson 7, Jón Arnór Stefánsson 7, Hörður Axel Vilhjálmsson 7, Pavel Ermolinskij 3, Tryggvi Hlinason 2.

Vísir/Getty

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira