Körfubolti

Vantaði að við settum tóninn til að fá áhorfendurna betur með okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson í leiknum í gær.
Jón Arnór Stefánsson í leiknum í gær. Vísir/Ernir
Jón Arnór Stefánsson og félagar í íslenska körfuboltalandsliðinu urðu að sætta sig við 29 stiga tap á móti Grikkjum í fyrsta leik sínum á Eurobasket 2017.

Íslenska liðið lenti 19 stigum undir í byrjun annars leikhluta og þrátt fyrir að koma muninum niður í tvö stig með frábærum kafal í öðrum leikhluta þá misstu strákarnir leikinn aftur frá sér í seinni hálfleik.

„„Þetta var alltof mikill munur en við misstum tök á leiknum í seinni hálfleiknum. Auðvitað er sárt að horfa töfluna þegar það er svona mikill munur en það skiptir ekki öllu máli. Það er ekki annað hægt en að taka það með okkur út úr þessum leik sem við gerðum vel í dag og halda áfram,“ sagði Jón Arnór Stefánsson eftir leikinn.

Íslenska liðið á eftir að spila fjóra leiki í riðlinum í Helsinki og það þýðir ekkert að hengja haus núna.

„Við erum bara brattir. Þetta er bara fyrsti leikur og áfram gakk,“ sagði Jón Arnór. Annar leikhlutinn sýndi hvað liðið getur gert flotta hluti þegar þeir ná sínum takti.

„Það kom þetta sjálfstraust og þetta grúv sem við þekkjum ágætlega. Það vantaði í hina leikhlutana og menn voru ekki að setja þessi skot niður sem gefa mönnum kraft. Þá fylgir allt með, áhorfendur, stemmningin og allt þetta sem skiptir máli,“ sagði Jón Arnór.

„Það er erfitt þegar þú ert að klikka á öllum skotum og tapar boltanum auðveldlega. Að sjálfsögðu er ekki skemmtilegt að horfa á það upp í stúku. Það vantaði að við settum tóninn til að fá áhorfendurna betur með okkur," sagði Jón Arnór en liðið fær annað möguleika til þess í öðrum leik sínum á móti Póllandi á morgun.

„Það sást hvað skapaðist góð stemmning í öðrum leikhluta og það væri gaman að setja saman heilan leik af því," sagði Jón Arnór að lokum.


Tengdar fréttir

Þarf að vera klókari

Grikkir smjöttuðu á mistökum körfuboltastrákanna okkar í 29 stiga sigri í Helsinki í gær. Frábær annar leikhluti kveikti vel í fjölda Íslendinga sem voru mættir í höllina en hinir þrír leikhlutarnir töpuðust samtals 38-79. Einn af þeim sem geta gert miklu betur er Martin Hermannsson sem dró ekki dul á eigin ábyrgð eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×