Sögusagnir eru á kreiki um að nýjasta útgáfa iPhone símans muni bera heitið iPhone X. Í ár eru áratugur liðinn frá því að fyrsti iPhone síminn kom út. Nýjar útgáfur, ásamt nýju Apple Watch og fleiru verða kynnt á þriðjudag.
Í hvert skipti sem ný útgáfa af iPhone kemur á markaðinn fara af stað miklar vangaveltur og sögusagnir um heiti hans. Upplýsingar um nöfnin komu fram í gögnum um stýrikerfi símanna sem láku frá Apple Inc. Upplýsingafulltrúi Apple neitaði þó að svara fyrirspurnum um málið.
Þrjár nýjar útgáfur af iPhone verða kynntar á þriðjudaginn og talið er að þeir verði kallaðir iPhone 8, iPhone 8 Plus og iPhone X.
Spennandi verður að sjá hvaða nýjungar tæknirisinn mun bjóða upp á með nýju útgáfunum. Hægt verður að fylgjast með kynningunni, sem haldin verður í höfuðstöðvum Apple í Kaliforníu, í beinni útsendingu á heimasíðu Apple Inc.

