Erlent

Skoti stærsta geimsjónauka heims frestað til 2019

Kjartan Kjartansson skrifar
Engin leið verður að lagfæra James Webb-geimsjónaukann þegar hann verður kominn út í geim. Því fara stjórnendur hans sér í engu óðslega með að skjóta honum á loft.
Engin leið verður að lagfæra James Webb-geimsjónaukann þegar hann verður kominn út í geim. Því fara stjórnendur hans sér í engu óðslega með að skjóta honum á loft. Vísir/AFP
James Webb-geimsjónaukanum verður ekki skotið á loft á næsta ári eins og til stóð. Nú er áætlað að skjóta honum á loft vorið 2019 eftir að hægar gekk að samþætta og innleiða tækjabúnað sjónaukans en gert hafi verið ráð fyrir.

Bandaríska geimstofnunin NASA tilkynnti þetta í gær en James Webb er samvinnuverkefni hennar, Evrópsku geimstofnunarinnar (ESA) og þeirrar kanadísku.

Upphaflega stóð til að skjóta sjónaukanum, sem er ætlað að vera arftaki Hubble-geimsjónaukans, í október á næsta ári. Nú er stefnt að því að geimskotið geti farið fram einhvern tímann á tímabilinu mars til júní árið 2019, að því er segir í frétt Space.com.

James Webb verður stærsti geimsjónauki sögunnar. Speglar hans eru 6,5 metrar að þvermáli, borið saman við 2,4 metra Hubble-sjónaukans.

Ólíkt Hubble sem var á braut um jörðu verður James Webb komið fyrir í svonefndum Lagrange-punkti 2 í um 1,5 milljón kílómetra fjarlægð frá jörðinni í áttina frá sólu. Því verður engin leið að gera lagfæringar á sjónaukanum þegar hann er einu sinni kominn á sinn stað.

Lagrange-punktur 2 er staður í geimnum þar sem þyngdarkraftar jarðar og sólar jafnast út. Þegar James Webb verður kominn þangað fylgir hann árlegri sporbraut jarðar eftir fullkomlega á ferð hennar í kringum sólina.


Tengdar fréttir

Ad astra, Cassini

Einum stórkostlegasta rannsóknarleiðangri vísindasögunnar lauk á dögunum þegar geimfarið Cassini steyptist ofan í lofthjúp Satúrnusar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×