Körfubolti

Dwyane Wade verður liðsfélagi LeBron James á ný

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwyane Wade og LeBron James.
Dwyane Wade og LeBron James. Vísir/Getty
Dwyane Wade hefur tekið ákvörðun um að ganga til liðs við Cleveland Cavaliers og spila með liðinu í NBA-deildinni á komandi tímabili samkvæmt heimildum bandarískra fjölmiðla.

Chicago Bulls keypti upp samninginn við Dwyane Wade á sunnudaginn og verður hann laus allra mála í dag.

Wade mun skrifa undir eins árs samning við Cleveland og verður þar á lágmarkslaunum eða „aðeins“ 2,3 milljónum dollara fyrir tímabilið.

Wade þarf svo sem ekki að kvarta. Hann gaf eftir átta milljónir dollara þegar Chicago Bulls keypti hann út samningnum. Wade átti að fá 23,8 milljónir dollara fyrir allt 2017-18 tímabilið en fær 15,8 milljónir dollara eða 1,7 milljarða í íslenskum krónum. Bulls er því í raun að borga launin hans hjá Cleveland í vetur.

Cleveland Cavaliers hafði betur í kapphlaupinu við Oklahoma City Thunder, San Antonio Spurs og Miami Heat sem komu öll líka til greina.



Vinirnir Dwyane Wade og LeBron James verða því liðsfélagar á ný en þeir spiluðu saman í fjögur tímabil með Miami Heat. Þá kom Lebron til Wade í Miami en núna endurgeldur Dwyane Wade honum greiðann og kemur til James í Cleveland.

Cleveland Cavaliers liðið hefur komist í lokaúrslitin þrjú tímabil í röð og vann NBA-titilinn 2016. James og Wade hafa báðir orðið þrisvar sinnum meistarar, tvisvar sinnum saman og einu sinni sér.

Wade er 35 ára gamall en var með 18 stig að meðaltali með Chicago Bulls á síðasta tímabili. Á fjórtán tímabilum í NBA-deildinni er hann með 23,3 stig, 5,7 stoðsendingar og 4,8 fráköst að meðaltali í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×