Nokkrir breskir fjölmiðla fjölluðu um þetta tilboð en blaðamaður Independent, Simon Calder, segir þær umfjallanir hafa verið „falskar fréttir“.
„Til að byrja með þá er Wow Air ekki að hefja nýja flugleið frá Stansted til JFK. Það mun flytja þig frá Essex til Keflavíkurflugvallar á Íslandi, þar sem þú þarft að ná tengiflugi til að komast til New York,“ skrifar Calder.
Hann segir að þetta 99 punda tilboð hafa aðeins staðið til boða ef bókað var báðar leiðir og þá hafi heimferðin verið dýrari. Þá hafi bókunargjald einnig verið bætt við upphæðina.
„Við erum að bjóða upp á mjög samkeppnishæf verð sem leggjast vel í fólk enda seldust þessi sæti fljótt upp,“ segir María Margrét Jóhannsdóttir hjá Wow Air við Vísi vegna skrifa breska blaðamannsins.

„Við höfum almennt ekki orðið vör við gagnrýni sem þessa,“ segir María.
Calder segir Wow Air hafa heillað heimsbyggðina með þessu tilboði sínu og að það hafi meira segja ratað í fréttir á Nýja Sjálandi.
Hann tekur fram að ódýrasta flugið báðar leiðir með Wow Air frá London til New York hafi verið á 251 pund. Það sé got verð en ekki eins gott og tilboð flugfélagsins Primera Air sem hefur flug frá Stansted til New York í apríl næstkomandi. Með Primera Air hafi hann átt möguleika á að bóka báðar leiðir með Primera Air fyrir 234 pund, og án þess að þurfa að millilenda á Íslandi.
WOW Air tilkynnti í síðustu viku að það muni hefja flug frá Keflavíkurflugvelli til JFK-flugvallar í New York 26. apríl næstkomandi. Flugfélagið er nú þegar með áætlunarferðir á milli Keflavíkurflugvallar og Newark-flugvallar í New York.