Handbolti

Lovísa Thompson setti nýtt met í kaloríueyðslu í prófum landsliðsins | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lovísa Thompson.
Lovísa Thompson. Vísir/Ernir
Það kemur oft margt fróðlegt í ljós þegar íþróttafólk er mælt í bak og fyrir. Landsliðsfólk Íslands í handbolta er þar engin undantekning.

Fannar Karvel, nýr styrktarþjálfari landsliða Handknattleiksambands Íslands, hefur verið á fullu síðustu daga að að mæla leikmenn íslenska kvennalandsliðsins og hann hefur leyft fólki að fylgjast með á samfélagsmiðlum.

Ein af þeim sem komið hefur hvað best út úr mælingunum er ein efnilegasta handboltakona Íslands. Lovísa Thompson hélt upp á átján ára afmælið sitt í lok síðasta mánaðar en er engu að síður komin með mikla reynslu í efstu deild á Íslandi.

Lovísa kom snemma inn í meistaraflokk Gróttu og varð meðal annars tvisvar sinnum Íslandsmeistari með liðinu þar sem hún var í risastóru hlutverki þrátt fyrir að vera ekki komin með bílpróf. Lovísa hefur fyrir nokkru unnið sér sæti í íslenska landsliðinu þar sem hún mun væntanlega eiga fast sæti næstu árin.







Fannar segir frá því að Lovísa hafi sett nýtt met í kaloríueyðslu á 30 sekúndum í þessum prófum og sýnir myndband af henni á fullu á þrekhjólinu. Það var fyrir löngu vitað að Lovísa Thompson væri mikill orkubolti en hér er komin sönnun fyrir því. Fannar staðfestir að enginn hafi slegið við henni í orkubrennslu á hálfri mínútu. 

Að neðan má sjá myndbönd frá mælingum á stelpunum í íslenska handboltalandsliðinu, þar á meðal myndbandið af Lovísu að setja metið. 

 












Fleiri fréttir

Sjá meira


×