Handbolti

Dagur: Ekki margir sem hefðu átt að koma fyrr inn í landsliðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dagur í leik með þýska landsliðinu.
Dagur í leik með þýska landsliðinu. vísir/getty
Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japan, fylgist að sjálfsögðu vel með íslenska landsliðinu. Hann hefur ágætis tilfinningu fyrir næstu skrefum þess.

„Ég held að liðið sé í mjög skemmtilegum breytingafasa. Það glittir í unga og ferska stráka. Við vorum vanir því að vera með mjög reynslumikið lið. Núna er óvissan meiri og sérstaklega þegar er farið á stórmót. Það er ákveðinn rússíbani; margir leikir á skömmum tíma,“ sagði Dagur og bætti því að það væri enn mikil reynsla í íslenska liðinu.

Eitt vinsælasta umræðuefnið þegar kemur að íslenska landsliðinu eru kynslóðaskiptin; hvort þau hafi komið of seint eða hvernig það ætti útfæra þau. Landsliðsþjálfarinn Geir Sveinsson hefur t.a.m. sagt að það hefði ekki mátt bíða mikið lengur með þau. Dagur er ekki á því að kynslóðaskiptin hafi tafist of lengi.

„Ég held að þau hafi verið mjög eðlileg. Við vorum með gríðarlega sterkt lið sem var enn í fremstu röð. Það er ekkert óeðlilegt að menn hangi á því. Fyrir utan það voru margir þeirra sem voru að spila hérna heima ekki beint að sýna að þeir væru klárir í að taka við. Það voru ekkert margir sem hefðu átt að koma mikið fyrr inn, ef ég á að vera hreinskilinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×