Steinunn eignaðist sitt fyrsta barn þann 16. desember en var sett 2. janúar. Dömunni litlu lá hins vegar á að mæta í heiminn en minnstu munaði að pabbinn, Vilhjálmur Theodór Jónsson, missti af fæðingu frumburðarins. Hann var nefnilega í Glasgow enda ekki algengt að fyrsta barn sé mikið að drífa sig.
„Hann rétt náði á fæðingardeildina. Kom klukkutíma fyrir fæðingu með einhverjum ótrúlegum hætti. Hann átti nefnilega að koma til Íslands á mánudeginum og ég held að hann hafi náð nokkrum klukkutímum í Glasgow,“ segir hún og hlær.

Steinunn fór í fæðingarorlof föstudaginn 15. desember og vann til hádegis. Pakkaði þá saman og gekk út. Fór svo á æfingu. „Ég æfði en í litlu álagi og af mun minni ákefð en ég var mjög heppin alla meðgönguna, var með litla sem enga verki og var hraust og gat unnið.
Ég fór í fæðingarorlof á föstudeginum um hádegi og litla daman kom daginn eftir. Ég fékk því hálfan sólarhring í orlofi.“
Hún segir að fæðingin hafi gengið vel og var hún lítið eftir sig eftir hana. Tveimur vikum síðar var hún mætt á æfingar að nýju með dömuna sem hefur ekki hlotið nafn. Verður skírð í byrjun febrúar.

Steinunn segir að daman sofi ekkert brjálæðislega mikið á næturnar en sé að öðru leyti mjög vær og góð. Steinunn ætlar að leita til sérfræðinga til að gera fyrirbyggjandi æfingar til að ekki komi bakslag.
„Það eru nokkrar sem hafa komið að máli við mig og sagt að það komi hugsanlegt bakslag og ég er meðvituð um það. Mér líður vel og ég hugsa vel um líkamann og hann kvartar ekki enn og þá er engin ástæða til að hægja á sér.
Líkaminn lætur vita og ef það væri eitthvað í gangi þá myndi ég bara slaka á. Ég hef verið þokkalega óheppin með meiðsli á ferlinum og kannski er líkaminn bara að borga til baka,“ segir hún og brosir.
Steinunn hefur verið að taka dömuna með á æfingar en pabbinn stundar einnig íþróttir, er í Njarðvík í Domino’s-deild karla. Það má því búast við að íþróttir verði fyrirferðarmiklar í uppeldinu og hún muni heimsækja flest íþróttahús landsins áður en hún nær eins árs aldri.
„Ég er rólegri þegar ég tek hana með á æfingar í staðinn fyrir að hún sé heima. Við erum margar mæður í Fram og elsta Frambarnið er að líta eftir minni sem er skemmtilegt. Það er fjölskyldustemning á æfingum og Stebbi þjálfari er vanur að vera með margra barna mæður á æfingum,“ segir hún.