Strákarnir hans Kristjáns Andréssonar í sænska handboltalandsliðinu urðu að gera sér silfurverðlaun að góðu eftir tap fyrir Spáni, 29-23, í úrslitaleik EM í Króatíu í gærkvöldi. Þetta er fyrsti Evrópumeistaratitill Spánverja sem unnu seinni hálfleikinn 17-9. Svíar voru yfir í hálfleik en leikur þeirra hrundi algjörlega í seinni hálfleik.
Kristján hefur gert frábæra hluti síðan hann tók við þjálfun sænska liðsins haustið 2016. Svíar enduðu í 6. sæti á HM í Frakklandi í fyrra og í ár komust þeir alla leið í úrslitaleik EM þrátt fyrir að hafa tapað þremur leikjum á leiðinni þangað. Þetta er besti árangur Svía á EM síðan þeir urðu Evrópumeistarar á heimavelli árið 2002.
Svíar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og náðu nokkrum sinnum þriggja marka forskoti. Mikael Appelgren var frábær í markinu og Svíþjóð fékk mörg ódýr mörk úr hraðaupphlaupum.
Spánverjar tóku völdin í upphafi seinni hálfleiks en 5-1 vörn þeirra sló vopnin úr höndum Svía. Töpuðu boltarnir hrönnuðust upp hjá sænska liðinu og þá gerði markvörðurinn reyndi, Arpad Sterbik, sænsku leikmönnunum lífið leitt.
Hann var kallaður inn í spænska hópinn fyrir úrslitahelgina vegna meiðsla Gonzalo Pérez de Vargas. Sterbik varði þrjú víti í sigrinum á Frökkum í undanúrslitunum og svo átta skot (38%) í úrslitaleiknum. Einstakur markvörður þar á ferð.
Svíar fundu engar leiðir í gegnum spænska varnarmúrinn en til marks um það skoruðu þeir bara tvö mörk á fyrstu 19 mínútum seinni hálfleiks. Á meðan röðuðu Spánverjar inn mörkum. Úrslitin voru nánast ráðin um miðjan seinni hálfleikinn og á endanum munaði sex mörkum á liðunum, 29-23. Svekkjandi niðurstaða fyrir Svía en árangurinn á EM verður samt að teljast stórgóður.
Svíar fengu silfur
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Mest lesið

„Við erum búnir að brenna skipin“
Íslenski boltinn


„Við bara brotnum“
Körfubolti

„Þetta er fyrir utan teig“
Íslenski boltinn

„Eru greinilega lið sem eru betri en við“
Körfubolti

Markmenn Bestu deildar kvenna: Hásætið laust
Íslenski boltinn

„Mínir menn geta borið höfuðið hátt“
Íslenski boltinn

„Kominn tími fyrir þá að fara í háttinn“
Körfubolti


Daði leggur skóna á hilluna
Íslenski boltinn