Innlent

16 ára piltur gripinn við sölu fíkniefna

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Lögreglan hafði í nógu að snúast í nótt.
Lögreglan hafði í nógu að snúast í nótt. Vísir/KTD
Klukkan hálf ellefu í gærkvöldi hafði lögreglan afskipti af 16 ára pilti sem grunaður var um að selja fíkniefni. Við leit á drengnum fann lögregla einnig eggvopn. Játaði pilturinn sölu fíkniefna og var faðir hans kallaður á lögreglustöðina. Óskað var eftir húsleitarheimild hjá piltinum en þegar í ljós kom að sú heimild yrði ekki veitt fyrr en í dag var piltinum sleppt.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglu í morgun.

Þá segir einnig að um klukkan hálf tólf hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu vegna mjög ölvaðs manns á hóteli í vesturbæ Reykjavíkur. Var maðurinn með læti og var til ama svo gestir hótelsins höfðu ekki frið. Maðurinn var sjálfur gestur á ho´telinu en sökum ástands hans var óskað eftir því að hann yrði fjarlægður og var hann vistaður í fangageymslu þar til af honum rennur.

Rétt eftir klukkan tvö í nótt var óskað eftir aðstoð lögreglu að verslun í miðbænum. Mjög ölvaður maður var búinn að stinga inn á sig vörum og neitaði hann að greiða fyrir þær. Maðurinn var fluttur á lögreglustöðina á Hverfisgötu þar sem átti að reyna að ganga frá málinu með skýrslu. Það gekk ekki og var maðurinn vistaður í fangageymslu þar til af honum rennur.

Um klukkan hálf eitt í nótt var tilkynnt um innbrot í Hafnarfirði og klukkutíma síðar var tilkynnt um innbrot í verslun uppi á Höfða.

Á þriðja tímanum var tilkynnt um að tveir menn væru að reyna að brjóta upp skáp við hlið eldsneytisdælu við bensínstöð í Hraunbæ. Tveir menn voru handteknir og við leit fundust fíkniefni á öðrum þeirra. Mennirnir fluttir á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem þeir voru vistaðir í fangageymslu vegna frekari rannsóknar málsins.

Þá voru fjórir ökumenn stöðvaðir grunaðir um ölvun við akstur og einn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×