Leikurinn var fyrri leikur liðanna í umspili um laust sæti á HM 2019. Skondið atvik gerðist um miðbik síðari hálfleiksins er Litháen fékk dæmt á sig ruðning í þann mund sem boltinn fór í mark Íslands.
Dómarnir, þá sérstaklega sá innri, dæmdu klárlega ruðning og markið átti því ekki að standa en tímataflan breyttist og Litháar fengu mark skráð á sig þrátt fyrir ruðningsdóm dómaranna.
Eftir mikið japl, jaml og fuður hjá eftirlitsdómara leiksins á hliðarlínunni endaði þetta með því að Litháar héldu markinu og við það eru Íslendingar eðlilega ósáttir enda úrslit leikjanna tveggja samanlagt það sem skiptir máli.
Róbert Geir staðfesti við Vísi að hann væri á fundi í höllinni þegar Vísir sló á þráðinn en vildi ekki tjá sig frekar um það né Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari. Þeir vildu bíða frekari fregna.
Síðari leikur liðanna fer fram í Laugardalshöll á miðvikudaginn en Vísir mun fylgjast áfram með gangi mála. Hér að neðan má svo sjá atvikið.
Dómarinn dæmdi ruðning í átjánda marki Litáen á móti Íslandi í kvöld. Samt stóð markið og Litáen vann leikinn 28-27. HSÍ ætlar að kæra. #handbolti pic.twitter.com/rsjpIu8Knu
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) June 8, 2018