Fyrirtækið Eyfar ehf. sá um rekstur ferjunnar þegar slysið var. Konan var farþegi um borð í ferjunni ásamt fjölskyldu sinni. Þegar skipið var við það að leggja að bryggju var því hins vegar siglt á bryggjuna með þeim afleiðingum að konan féll á lestarlúgu og í gólfið. Ekki vildi betur til en svo að þegar konan stóð upp var ferjunni aftur siglt á bryggjunna. Féll konan aftur og varð fyrir meiðslum vegna þess.
Í sjóbók ferjunnar var ritað að stefnið hafi rekist „harkalega í pollann“ og var konan beðin um að fara á slysadeild við komu í land. Gerði hún það en síðar kom í ljós að afleiðingar slyssins urðu meiri en upphaflega var talið útlit fyrir. Var konan frá vinnu í um hálft ár auk þess sem hún var metin með sjö prósent varanlega örorku.

Tryggingarmiðstöðin hafnaði bótakröfu konunnar á þeim grundvelli að rekja mætti slysið til bilunar í stýrisbúnaði, því hafi ekki verið hægt að rekja meiðsli konunnar til yfirsjónar eða vanrækslu Eyfars.
Þáverandi skipstjóri Sævars sem starfaði í afleysingum gaf skýrslu fyrir dómi og sagði hann að einhvers konar rafmagnsvandræði hefðu hrjáð skipið í nokkurn tíma og að í umrætt skipti hafi þessi vandræði teygt sig til vélarinnar.
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur segir að í ljósi þess að rannsóknarnefnd samgönguslysa hafi ekki verið tilkynnt um slysið sem og ummæla skipstjórans um rafmagnsvandræðin verði að líta svo á að Tryggingamiðstöðinni hafi ekki tekist að sýna fram á að yfirsjón eða vanræksla starfsmanna væri ekki að kenna um meiðsli konunnar.
Var því fallist á kröfu konunnar og þarf Tryggingarmiðstöðin að greiða henni 3,5 milljónir í skaðabætur vegna málsins en dóm Héraðsdóms má lesa hér.