Hér er því fyrst að svara að valdaframsal er valdaframsal, þótt færa megi fyrir því rök að það gæti verið meira en það er. Margir litlir skammtar gera stóran bita, og þegar búið er að færa hluta valdsins til útlanda, er viðbúið, að upp komi álitamál um hver mörk framseldra valdheimilda eru. Í svoleiðis deilu úrskurðar Evrópusambandið sjálft, ekki yfirvald á Íslandi. Enginn getur svarað því hvaða afleiðingar valdaframsalið getur haft þegar til lengri tíma er litið.
Orkuverð mun hækka
Sendiherrann segir að megintilgangur orkubálksins sé að veita neytendum ódýra og örugga orku. Það á ef til vill við um neytendur í Evrópusambandinu, en ekki á Íslandi. Engum vafa er undirorpið að orkuverð á Íslandi mun hækka mjög mikið daginn sem sæstreng verður stungið í samband. Svo vill reyndar til að sæstrengur milli Íslands og Bretlands er einmitt á kerfisáætlun Evrópusambandsins og vitaskuld er ætlast til að þeir sem eigi aðild að áætlun framfylgi henni. Líklega veit fulltrúi Evrópusambandsins á Íslandi þetta allt saman, því hann tekur á sig krók til að tilkynna að Bretland sé á leið úr Evrópusambandinu og einmitt þess vegna sé ekkert að óttast þótt sæstrengur verði lagður til Bretlands.Því er til að svara að raforkuviðskipti munu halda áfram á milli Bretlands og meginlands Evrópu og enginn veit hvort Skotland eða England verða í Evrópusambandi eftir tvö eða tíu ár. Snúra til Írlands sem er ekki á leið úr Evrópusambandinu yrði auk þess aðeins litlu lengri en snúra til Skotlands. Ef og þegar tenging af þessu tagi kemst á verður of seint að iðrast þess að hafa, fullkomlega að nauðsynjalausu, afsalað sér stjórnvaldinu úr landi til erlends ríkjasambands. Ekki sakar í þessu samhengi að rifja upp að hér er um að ræða sama ríkjasamband sem reyndi af alefli að knýja Íslendinga til að samþykkja fjárkröfu sem nam hálfum öðrum ríkisfjárlögum fyrir örfáum árum síðan.
Það vill þetta enginn
Sendiherrann gleðst yfir því að ráðgjafi ráðherra orkumála á Íslandi, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá ESA, skuli vera honum sammála. Í því sambandi ber að rifja upp að landsfundur flokks ráðherrans samþykkti í mars sl. eindregna yfirlýsingu gegn frekara framsali yfirráða yfir íslenskum orkumálum. Um það bil allir kjósendur sama flokks eru andvígir framsali valds í orkumálum til útlanda, sem og stór meirihluti kjósenda þeirra flokka sem finnst Evrópusambandið vera áhugaverður kostur.Svo mikill vafi leikur á lögmæti valdaframsalsins í þriðja orkulagabálki Evrópusambandsins og svo mikil er andstaða Íslendinga við valdaframsal í orkumálum að varla verður hjá því komist að leita fulltingis dómstóla eða forseta Íslands til að hrinda lögunum, fari svo ógæfulega að þau verði samþykkt á Alþingi.
Höfundur er formaður Heimssýnar