Norðmenn eru komnir á HM í handbolta sem haldið verður í Þýskalandi og Danmörku í janúar á næsta ári eftir sigur á Sviss, samanlagt 62-59, í umspilsleikjunum tveimur.
Þrátt fyrir tap í kvöld 33-30 er norska liðið komið á HM en spilað verður í löndunum tveimur frá níunda til 27. janúar á næsta ári.
Leikið var í Sviss í kvöld en Norðmenn höfðu unnið fyrri leikinn með sex mörkum þar sem Sander Sagosen fór á kostum og skoraði tíu mörk.
Norðmenn voru yfir í hálfleik, 16-15, en Sviss tók yfirhöndina í síðari hálfleik og leiddi meðal annars 22-18. Þá kom Espen Christensen í markið og sá til þess að munurinn endaði ekki í meira en þremur mörkum, 33-30.
Norska liðið er því komið á HM eins og áður segir en markahæstur var aftur miðjumaður PSG, Sander Sagosen. Hann dró vagninn hjá norska liðinu í leikjunum tveimur.
