Handbolti

Strákarnir okkar byrja á erfiðustu leikjunum á HM en enda svo á úrslitaleik við Makedóníu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson verður í lykilhlutverki á HM 2019.
Aron Pálmarsson verður í lykilhlutverki á HM 2019. vísir/ernir
Íslenska karlalandsliðið í handbolta er á leiðinni á HM í handbolta í Þýskalandi og Danmörk í janúar á næsta ári og nú er leikjaniðurröðun Íslands klár. HSÍ hefur fundið fyrir gríðarlegum áhuga fyrir mótinu meðal Íslendinga.

Íslenska landsliðið lenti í riðli með Spáni, Króatíu, Makedóníu og svo Asíuþjóðunum Japan og Barein en tvö síðastnefndu liðin eru þjálfuð af Íslendingum.

Strákarnir okkar leika alla leiki sína í riðlinum í Olympiahalle í München í Þýskalandi og fyrsti leikurinn er á móti Króatíu 11. janúar. Liðið færi svo einn frídag fyrir annan erfiðan leik á móti Spáni.

Íslensku strákarnir mæta Aroni Kristjánssyni og lærisveinum hans í Baren 14. janúar og eftir eins dags hvíld er síðan komið að leik á móti Degi Sigurðssyni og strákunum hans í japanska landsliðinu.

Lokaleikur íslenska liðsins er síðan á móti Makedóníu en fyrirfram má búast við því að það verði úrslitaleikurinn um þriðja sæti riðilsins. Sá leikur fer fram daginn eftir leikinn við Japan.

Fjórar efstu þjóðirnar fara áfram í sextán liða úrslitin. Róðurinn verður mjög þungur í fyrstu tveimur leikjunum en svo er góður möguleiki fyrir íslenska landsliðið að vinna þrjá síðustu leiki sína í riðlinum.

Leikir Íslands í riðlakeppni HM 2019:

Ísland – Króatía 11. janúar

Spánn – Ísland 13. janúar

Ísland – Barein 14. janúar

Japan – Ísland 16. janúar

Makedónía – Ísland 17. janúar

Tímasetningar leikjana liggja ekki fyrir enn sem komið er. HSÍ hefur fundið fyrir gríðarlegum áhuga fyrir mótinu og munum við veita ýtarlegri upplýsingar um leið og þær berast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×