Fótbolti

Ekki fleiri landsleikir hjá Messi á þessu ári en hvað svo?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einn af síðustu landsleikjum Lionel Messi var möguleika á móti Íslandi.
Einn af síðustu landsleikjum Lionel Messi var möguleika á móti Íslandi. Vísir/Getty
Lionel Messi hefur látið argentínska landsliðsþjálfarann vita af því að hann ætli ekki að taka þátt í næstu leikjum landsliðsins.

Argentínska þjóðin gæti því verið að missa sinn besta leikmann úr landsliðinu en tólf ára barátta Lionel Messi fyrir að verða heimsmeistari lauk væntanlega á HM í Rússlandi í sumar.

Er Lionel Messi hættur í argentínska landsliðinu? Svo gæti verið en þessi frábæri leikmaður hefur ekki gefið neitt slíkt út.

Argentínska blaðið Clarin segir frá því að Messi ætli ekki að spila æfingaleiki við Kólumbíu og Gvatemala sem fara fram í Bandaríkjum í haust.

Það er ljóst en einnig er mikil óvissa með þáttöku Messi í Suðurameríkukeppninni sem fer fram næsta sumar.

Lionel Scaloni er tekinn við argentínska landsliðinu tímabundið og Messi lét hann vita af ákvörðun sinni.

Javier Mascherano og Lucas Biglia tilkynntu báðir að þeir væru hættir eftir tapið á móti Frakklandi í sextán liða úrslitum HM en Messi gaf ekkert út.

Síðast þegar hann hætti í landsliðinu eftir sárt tap á stórmóti þá varð allt vitlaust og kannski ætlar hann að fara öðruvísi að þessu núna.

Lionel Messi hefur ekki náð að vinna HM en honum hefur heldur ekki tekist að vinna Suðurameríkukeppnina á þrettán ára ferli sínum með landsliðinu. Eina titilinn vann hann með yngra liði Argentínu á Ólympíuleikunum í Peking 2008.

Hannes Þór Halldórsson ver hér vítiaspyrnu frá Lionel Messi á HM í Rússlandi.Vísir/Getty
Lionel Messi umrkringdur íslenskum varnarmönnum.Vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×