Innlent

50 milljónir í neyslurými fyrir fíkniefnaneytendur

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Stefnt er að opnun neyslurýmis og aðgengi að nálaskiptabúnaði fyrir fíkniefnaneytendur í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019. Verkefnisstýra hjá Rauða krossinum fagnar stuðningi við skaðaminnkandi verkefni.

Um 50 milljónir króna eru merktar í fjárlagafrumvarpinu til að koma á fót neyslurými í Reykjavík, þar geta þeir sem nota vímuefni í æð átt skjól og fengið aðgang að hreinum nálum.

Rauði krossinn hefur lengi barist fyrir neyslurýmum í borginni en Frú Ragnheiður, úrræði sem samtökin reka, nær eingöngu að sinna hluta af þjónustunni. Neyslurými bjóða upp á meiri möguleika að sögn Svölu Jóhannesdóttur, verkefnisstýru Frú Ragnheiðar.

„Við ráðum í raun hversu mikið við leggjum í þetta. Á að vera félagsþjónusta á staðnum, læknisþjónusta, á að vera sálfræðingur á svæðinu og áfallamiðuð þjónusta? Við þurfum að skoða hver þörfin er mest hérna heima,“ segir Svala.  Hún fagnar því að fimmtíu milljónir hafa verið samþykktar í verkefnið.

„Það er fyrsta skrefið í að koma þessu af stað því það er gríðarlega mikil þörf á að við setjum þetta á laggirnar. Því það er mikið af fólki núna dags daglega að nota vímuefni í æð utandyra á Íslandi.“

Að sögn Svölu eru 500-550 manns sem nota vímuefni í æð og stór hluti þeirra er heimilislaus. Svala gerði þarfagreiningu meðal hópsins og spurði sérstaklega um neyslurými.

„Þar kom mjög skýrt fram að þau vildu að úrræðið yrði sett upp í 101 Reykjavík, að það væri opið allan sólarhringinn og að boðið yrði upp á heilsbrigðisþjónustu á staðnum.“


Tengdar fréttir

Unnið að opnun neyslurýmis

Velferðarráðuneytið og Reykjavíkurborg hafa hafið vinnu við opnun neyslurýmis fyrir langt leidda vímuefnaneytendur.

Vilja samstarf við heilbrigðisyfirvöld um opnun neyslurýma

Regína Ásvaldsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar segir að borgin muni líklega fylgja öðrum borgum á Norðurlöndunum og styðja við opnun neyslurýma til að bæta þjónustu við þá jaðarsettu einstaklinga sem neyta vímuefna um æð. Borgin vilji skoða slíkt í nánu samstarfi við heilbrigðisyfirvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×