Aðalmeðferð í Aurum-málinu hófst í gær í Landsrétti og heldur áfram í dag. Málið snýst um meint umboðssvik og hlutdeild í tengslum við sex milljarða króna lánveitingu Glitnis til félagsins FS38 ehf. árið 2008, en félagið var í eigu Pálma Haraldssonar.
Þrír eru ákærðir. Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, og Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, fyrir umboðssvik. Jón Ásgeir Jóhannesson, sem var einn aðaleigandi Glitnis, er ákærður fyrir hlutdeild í meintum umboðssvikum Lárusar og Magnúsar. Lárus og Magnús voru sakfelldir í héraði í nóvember 2016 en Jón Ásgeir og Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi viðskiptastjóri Glitnis, sýknaðir.
Þetta er í fjórða sinn sem málið er tekið fyrir. Það var fyrst tekið fyrir í héraði 2014. Allir voru sýknaðir en málinu áfrýjað. Í apríl 2015 ógilti Hæstiréttur dóm héraðsdóms vegna ummæla eins meðdómara. Málið var tekið fyrir aftur í nóvember 2016.
Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, segir að vissulega lendi hann í því nú að endurtaka sig. „En það er ekki málið að vorkenna mér eða dómurunum. Þetta er verra fyrir fólkið sem hefur verið ákært.“

