Innlent

Myndband úr vél Icelandair sýnir farþega haldast í hendur í mikilli ókyrrð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fjórir þurftu á áfallahjálp að halda eftir flug með vél Icelandair frá Billund í Danmörku til Keflavíkur í gær. Mikil ókyrrð var í háloftunum fyrstu klukkustundina af flugtímanum og þurftu sumir farþegar að grípa til ælupoka. Farþegi sem Vísir ræddi við lýsti því að hann hefði talið þetta myndu verða hans seinasta. 

Farþegi, sem glímir við mikla flughræðslu og tekur róandi lyf fyrir flug, segir flugstjóranum og áhöfn að þakka að fólk hafi ekki farið verr út úr ferðalaginu en raunin var. Flugstjórinn hafi verið yndislegur, róað fólkið niður með því að árétta ítrekað að þótt flugið virkaði ógnvekjandi þá hefðu þeir fulla stjórn á vélinni.

Eftir rúma klukkustund náði flugvélin réttri hæð og ókyrrðin minnkaði.

Í myndbandi sem einn farþegi vélarinnar sendi Vísi má sjá ókyrrðina í um eina og hálfa mínútu. Þar sjást farþegar haldast í hendur en viðbrögð fólks við ókyrrðinni eru misjöfn. Má væntanlega rekja það til þess að sumir eru flughræddari en aðrir auk þess sem fólk er misviðkvæmt fyrir ókyrrð hvort sem er í flugvél, bíl eða á sjó.

Að ofan má sjá myndband sem sýnir ókyrrðina hluta af þeirri klukkustund sem hún stóð yfir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×