Erlent

Segir fólk klæðast dulargervum til að kjósa ólöglega

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Getty/Yuri Gripas
Donald Trump Bandaríkjaforseti hélt því fram í gær að fólk hefði klæðst dulargervum til að kjósa ólöglega í nýafstöðnum þingkosningum í Flórída. Enginn fótur er fyrir þessum fullyrðingum forsetans. Frestur til endurtalningar á atkvæðum í ríkinu rennur út í dag.

Endurtalningar hafa farið fram í mörgum ríkjum Bandaríkjanna til að skera úr um úrslit kosninganna 6. nóvember síðastliðinn. Repúblikanar á borð við Trump sjálfan og fyrrverandi forsetaframbjóðandann Marco Rubio hafa þó ítrekað sakað Demókrata um kosningasvindl vegna endurtalninganna.

Trump ræddi eftirköst kosninganna í viðtali við hægrisinnaða vefritið Daily Caller. Þar sagði hann að Repúblikanar ynnu ekki kosningarnar vegna „mögulegra ólöglegra atkvæða“.

„Þegar fólk sem hefur algjörlega engan rétt til að kjósa fer í röð og það fer í hringi. Stundum fer það út í bíl, setur á sig annan hatt, fer í annan bol, kemur inn og kýs aftur. Enginn tekur neitt. Þetta sem er í gangi er algjör hneisa.“

Ríkisstjóri Flórída, Rick Scott, sem lýsti yfir sigri gegn Demókratanum Bill Nelson í baráttunni um öldungadeildarsæti ríkisins, hefur sagt að andstæðingar sínir hafi rænt kosningunum með því að krefjast endurtalningar á atkvæðum. Ekki hefur þó verið formlega skorið úr um úrslit kosninganna þar sem munurinn var svo naumur að endurtalningar hófust.


Tengdar fréttir

Bræði og óreiða í Hvíta húsinu

Síðustu dagar í Hvíta húsinu hafa einkennst af mikilli bræði Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og óreiðu en von er á miklum sviptingum meðal starfsmanna forsetans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×