Skoðun

Jólalegt í Köben

Guðrún Vilmundardóttir skrifar
Ég er að koma frá Köben. Er ekki enn nógu forfrömuð til að skella mér í julefrokost eða innkaup, það verður næst. Heimsótti átján ára dóttur mína sem flutti utan í haust. Færði henni vetrarfötin sem hún kom ekki fyrir í farangrinum.

Af henni er gott að frétta og utandvölin hefur til dæmis kennt henni að það er gott að vaska upp eftir sig. Morgunkorn og hafragrautur verða hvimleið í skálum sem standa lengi óhreyfðar í vaskinum. Á þetta hef ég minnst endrum og sinnum í áratug, en eitthvað í útlandinu opnaði fyrir þessa skilningsrás.

Þá hefur runnið upp fyrir henni að tómar mjólkurfernur sem eru settar fyrir aftan kranann hjá eldhúsvaskinum safnast bara saman þar. Það varð ákveðin vitrun þegar þær voru orðnar átta.

Það lítur út fyrir að hún hafi fundið týnda hlekkinn í heimilisstörfum í Danmörku, mína ósýnilegu móðurhönd.

Nú er svo sannarlega jólalegt í Köben. Við borðuðum á veitingastað með útsýni yfir jólatívolí og það var reglulega hátíðlegt.

Einu sinni átti ég tvo samstarfsmenn sem fóru til Danaveldis í virðulegan julefrokost sem var haldinn í nágrenni höfuðborgarinnar. Þeir tóku lestina inn til Kaupmannahafnar daginn eftir, en þá voru þeir svo þreyttir, einhverra hluta vegna, að þeir komust aldrei út af lestarstöðinni heldur settust þar á írskan bar og horfðu á fótboltaleik. Fóru svo beint út á flugvöll með lest.

Þegar þeir komu aftur til vinnu í Reykjavík og voru spurðir: „Er ekki orðið jólalegt í Köben?“ svöruðu þeir einfaldlega, fremur þurrlega: „Þegiði.“




Skoðun

Sjá meira


×