Skoðun

Mannréttinda- og lýðræðissamfélag fyrir alla

Dóra Björt Guðjónsdóttir skrifar
Meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur tekur mannréttindavernd alvarlega og styður við tækifæri allra borgarbúa til lýðræðisþátttöku í samfélaginu. Þetta endurspeglast í fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.

Mannréttindi eru ekki bara fyrir einstaklinga sem lifa lífi sem er öðrum þóknanlegt. Skaðaminnkun snýst um að minnka skaða óháð því að minnka neyslu því að við eigum öll rétt á góðu lífi, öryggi og bestu mögulegu heilsu. Það þarf að hjálpa fólki í vanda, ekki refsa því. Á næsta ári munu framlög borgarinnar til skaðaminnkunarúrræða aukast um hálfan milljarð. Við ætlum meðal annars að fimmfalda fjölda íbúða byggt á hugmyndafræði um húsaskjól án skilyrða eða ‘Housing First’, koma á laggirnar gistiskýli fyrir unga karlmenn og opna heimili fyrir konur með geð- og fíknivanda. Í fjárhagsætlun verður tryggt fjármagn í nýtt lýðræðisverkefni sem verður ýtt úr vör á nýju ári og að auki verður sett fjármagn í aukna vinnu við lýðræðismál. Allir eiga að geta átt hér gott líf og tekið virkan þátt í samfélaginu.

Að auki verður lögð mikil áhersla á aukna rafræna þjónustu og aðgengi að upplýsingum. Við höfum nýtt tíma okkar í meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur til að dreifa valdi, auka gagnsæi og styrkja tækifæri til aðhalds og þátttöku, bæði fyrir borgarbúa og fyrir fulltrúa minnihlutans. Við höfum nýlega samþykkt að dagskrár funda skuli vera birtar opinberlega og enn fremur að öll gögn skuli einnig birt með dagskránni. Þar að auki höfum við ákveðið að valdefla minnihlutann og auka aðkomu hans að ákvarðanatöku og dagskrárgerð með því að fulltrúar minnihlutans taki sæti í forsætisnefnd sem varaforsetar.

Ég hef hleypt málum minnihlutans ofar á dagskrá en hefð er fyrir. Þannig er þeirra málum komið betur á framfæri við borgarbúa. Á sama tíma, á 70 ára afmæli mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, vill Sjálfstæðisflokkurinn leggja niður mannréttindaskrifstofu borgarinnar. Kaldar eru hamingjuóskirnar.

Höfundur er borgarfulltrúi Pírata, forseti borgarstjórnar og formaður mannréttinda- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×