Í frétt Reuters er haft eftir hinum 52 ára Sefcovic að hann njóti stuðnings jafnaðarmannaflokksins Smer, sem á sæti í ríkisstjórn.
Sefcovic hefur verið fulltrúi Slóvakíu í framkvæmdastjórn ESB frá árinu 2009, en öll aðildarríki eiga einn fulltrúa þar. Þar áður var hann sendiherra Slóvakíu gagnvart ESB.
Sóttist eftir að verða arftaki Juncker
Fyrr í haust bauð Sefcovic sig fram til að verða frambjóðandi þinghóps Jafnaðarmanna á Evrópuþinginu til að verða næsti forseti framkvæmdastjórnar ESB. Jean Claude Juncker hyggst láta af því embætti að Evrópuþingskosningunum loknum sem fram fara í maí.Sefcovic dró hins vegar framboð sitt til baka og lýsti yfir stuðningi við starfsbróður sinn innan framkvæmdastjórnarinnar, Hollendinginn Frans Timmermans.
Andrej Kiska, núverandi forseti Slóvakíu, hyggst ekki bjóða sig fram til endurkjörs. Kiska tók við embættinu árið 2014.