Þjóðverjar völtuðu yfir Kóreu í opnunarleik HM í handbolta í dag. Heimamenn í Þýskalandi fóru með 11 marka sigur.
Þýska liðið var sterkara strax frá upphafi og byggði hægt og rólega upp forskot sitt. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 17-10 fyrir heimamenn.
Í seinni hálfleik var spurningin svo aðeins hversu stór sigurinn yrði og hann hefði líklega orðið mun stærri ef ekki hefði verið fyrir frábæra frammistöðu kóreska markvarðarins sem varði 17 skot í markinu.
Þjóðverjar fóru þó með öruggan sigur af velli og lokatölur urðu 30-19. Þeir byrja því mótið á tveimur stigum en Kóreumenn eru stigalausir á botni riðilsins.
