Erlent

Baðst afsökunar á umdeildri árbókarmynd frá 1984 í gær en segist ekki vera á henni í dag

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Viðbrögð Ralph Northam við myndinni þykja ruglingsleg
Viðbrögð Ralph Northam við myndinni þykja ruglingsleg
Kallað hefur verið eftir afsögn Ralph Northam, ríkisstjóra Virginíu-ríkis Bandaríkjanna, eftir að árbókarmynd frá árinu 1984, þar sem sjá má mann í einkennisbúningi Ku Klux Klan og annan með svokallað „blackface“, var birt á netinu. Í gær baðst Northam afsökunar á myndinni en í dag segist hann ekki vera á myndinni.

Talið er að hægri-öfgamenn hafi grafið upp myndina og komið henni í dreifingu á netinu en myndin er úr árbók Eastern Virginia Medical School, þar sem Northam stundaði nám á sínum yngri árum. Myndbirtingin er rakin til ummæla Demókratans Northam um fóstureyðingarlöggjöf sem virðast hafa farið í taugarnar á þeim sem berjast gegn fóstureyðingum.

Á föstudaginn birti Northam afsökunarbeiðni þar sem hann baðst afsökunar á þeirri ákvörðun að sitja fyrir á myndinni.Þá birti hann myndband á Twitterþar sem hann sagðist axla ábyrgð á málinu, hann myndi hins vegar ekki segja af sér, líkt og margir hafa kallað eftir, þar á meðal háttsettir samflokksmenn hans í Demókratafloknum. Þeirra á meðal Joe Biden fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna.

Í dag birti Northam hins vegar aðra yfirlýsingu þar sem hann sagðist í raun ekki vera á myndinni, þvert á fyrri yfirlýsingu.

„Ég átta mig á því að margir munu eiga erfitt með að trúa þessu,“ sagði Northam í yfirlýsingunni.

„Frá því að ég birti yfirlýsinguna hef ég legið yfir myndinni með fjölskyldu minni og vinum og ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ég er ekki maðurinn á myndinni“.

Þá viðurkenndi hann að hafa verið með svokallað „blackface“ sem hluti af Michael Jackson búningi sama ár. Það hversu hann muni það skýrt styrki hann í þeirri trú að hann sé ekki á myndinni.

Þrýst er á Northam úr öllum áttum að hann segi af sér vegna málsins. Það hyggst hann þó ekki gera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×