Viðskipti innlent

Dregur framboð sitt til baka degi fyrir aðalfund

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Skuldbindingar koma í veg fyrir að Paul Richard Horner, sem tilnefningarnefnd hafði lagt til að yrði kjörinn í stjórn Arion banka, geti boðið sig fram.
Skuldbindingar koma í veg fyrir að Paul Richard Horner, sem tilnefningarnefnd hafði lagt til að yrði kjörinn í stjórn Arion banka, geti boðið sig fram. FBL/Eyþór
Paul Richard Horner hyggst ekki gefa kost á sér í stjórnarkjöri Arion banka, sem fram fer á aðalfundi bankans á morgun. Í tilkynningu sem Arion sendi til Kauphallarinnar eftir hádegi kemur fram að umræddur Horner hafi dregið framboð sitt til baka „vegna samningsskuldbindinga“ sem eiga að hafa komið upp eftir auglýsingu framboða. Ekki er nánar farið út í það hverjar þessar skuldbindingar eru.

Sex frambjóðendur verða því í framboði til stjórnar á aðalfundinum á morgun; þau Bene­dikt Gísla­son, Her­dís Dröfn Fjeld­sted, Liv Fiks­da­hl, Renier Lemmens, Stein­unn Kristín Þórð­ar­dótt­ir, auk Brynjólfs Bjarnasonar.

Tilnefningarnefnd stjórnarinnar leggur til að þau verði öll kjörin í stjórnina og að Brynjólfur verði stjórnarformaður. Fiskdahl og Lemmens koma því ný inn í stjórnina.

Í fyrrnefndri tilkynningu Arion segir jafnframt að fyrirhugað sé að halda hluthafafund síðar á árinu. Þar verði fjölgað í stjórn um einn og gert ráð fyrir að Paul Richard Horner muni bjóða sig fram til stjórnar bankans á þeim fundi.

Horner er fæddur árið 1962 og hefur meðal annars starfað fyrir Royal Bank of Scotland og Barclays. Tilnefningarnefnd bankans lagði til að hann yrði tekinn inn í stjórn bankans, enda búi hann yfir víðtækri reynslu úr bankageiranum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×