Sjávarútvegsráðherra Noregs, Harald T. Nesvik, hyggst ræða við japönsk stjórnvöld um aukinn markaðsaðgang fyrir norskar hvalaafurðir í fimm daga Japansför, sem hefst í dag. Norski ráðherrann verður í Japan til 15. mars en megintilgangur heimsóknarinnar er að styrkja viðskiptatengsl þjóðanna á sviði sjávarútvegs og ræða um mögulegan viðskiptasamning.
„Japan er mikilvægasti markaður Noregs í Asíu fyrir sjávarafurðir. Hann er sá markaður sem á margan hátt hefur mesta þýðingu fyrir norska laxaævintýrið,“ segir ráðherrann í yfirlýsingu á heimasíðu ráðuneytisins.
Þar kemur fram að Norðmenn fluttu út sjávarafurðir til Japans á síðasta ári fyrir um 55 milljarða íslenskra króna.

Framkvæmdastjóri Sjømat Norge, samtaka norska sjávarútvegsins, Geir Ove Ystmark, hvatti til þess í viðtali í Fiskeribladet í síðasta mánuði að sjávarútvegsráðherrann myndi krefja japanska ráðamenn um aukinn markaðsaðgang fyrir norskt hvalkjöt í staðinn fyrir sérfræðiráðgjöf, sem Norðmenn hefðu veitt Japönum á sviði hvalveiða.
Hann benti á að fulltrúar frá Japan hefðu nýlega verið í Noregi til að kynna sér stjórnun og kvótasetningu hvalveiða en Japanir stefna að því að hefja atvinnuveiðar að nýju þann 1. júlí í sumar. Japönsk stjórnvöld tilkynntu í desember að þau hefðu ákveðið að segja sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu og tekur úrsögnin gildi 30. júní.

„Vilji þeir fá okkar sérfræðiþekkingu, þá eigum við að fá markaðsaðgang fyrir okkar hvalaafurðir í staðinn,“ sagði Geir Ystmark. Hann sagði að Norðmenn hefðu þegar aðgang að japanska markaðnum með frosið hvalkjöt en þegar kæmi að ferskum afurðum væri reglurnar flóknar og ruglingslegar.
„Ef það er eitthvað sem norskar hvalveiðar þurfa, þá er það markaðsaðgang,“ sagði hann en norski hvalveiðikvótinn gerir ráð fyrir að allt að 1.278 hrefnur verði veiddar við Noregsstrendur í ár.
Sjávarútvegsráðherrann tók vel í þessa kröfu og lýsti því yfir að hann hygðist ræða um markaðsaðgang fyrir norskt hvalkjöt í Japansheimsókninni.