Skoðun

Bjargráð í sorg

Jóna Hrönn Bolladóttir skrifar
Ég hitti á dögunum konu sem hafði misst manninn sinn komin á miðjan aldur. Þau höfðu verið félagslega virk og kunnað að njóta lífsins og sameiginlegur uppskerutími var fram undan. Hún sagði mér að þegar maðurinn hennar féll frá hefði hún tekið þá ákvörðun að segja alltaf já við allri félagslegri þátttöku sama hvernig sorgarbylgjurnar dundu á henni. Hún mætti í leikhús, tónleika, matarboð og veislur burt séð frá því hvernig henni leið. Ég get ekki annað en borið virðingu fyrir þessari hraustlegu ákvörðun.

Svo var það fyrir nokkrum dögum að ég hlustaði á flottan sálfræðing tala um æskileg viðbrögð á álagstímum. Þar nefndi hún mikilvægi þess að hlúa að andlegri og líkamlegri heilsu alla tíð og ekki síst þegar áföllin dynja yfir. Þá þarf að passa upp á svefn, mataræði og hreyfingu. Og þar skiptir svefninn höfuðmáli.

Sumt fólk er bjargráðasnillingar. Góð vinkona mín sem missti manninn sinn þegar hún var ung brá á það ráð fyrsta árið eftir áfallið að hún varð alltaf samferða ungum syni þeirra í háttinn á kvöldin. Þannig náði hún að tryggja nægan svefn og hlúa að barninu og sjálfri sér á sama tíma. Þegar sálfræðingurinn snjalli hafði rætt um líkamlega og andlega heilsu bætti hún við: Svo má ekki gleyma félagslegri heilsu. Þá kviknaði á perunni hjá mér og mér varð hugsað til konunnar sem sagði já við öllum tilboðum um félagslega virkni.

Einmanaleiki og félagsleg einangrun hefur niðurbrjótandi áhrif og rænir lífsgæðum ekkert síður en svefnleysi og líkamleg vanræksla. Við erum líkamlegar, andlegar og félagslegar verur, og þurfum að hlúa að þessum þáttum alla daga þannig að bjargráðin okkar séu hluti af daglegum lífsstíl.




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×