Bandaríkjastjórn hefur fellt úr gildi landvistarleyfi Fatou Bensouda, saksóknara við Alþjóðasakamáladómstólinn, úr gildi. Ákvörðunin er sögð tengjast rannsókn Bensouda á mögulegum stríðsglæpum Bandaríkjahers og bandamanna hans í Afganistan.
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna hafði hótað því að starfsmönnum Alþjóðasakamáladómstólsins gæti verið hafnað um landvistarleyfi í Bandaríkjunum eða það fellt úr gildi ef þeir tækju þátt í rannsókn á Bandaríkjamönnum.
Talsmaður Bensouda segir að hún ætli sér að halda rannsókn sinni ótrauð áfram, að sögn breska ríkisútvarpið BBC. Dómstóllinn sagði í skýrslu árið 2016 og ástæða væri til að telja að Bandaríkjaher hefði beitt pyntingum í leynifangelsum í Afganistan auk þess sem afganska ríkisstjórnin og talibanar hefðu framið stríðsglæpi.
Bandaríkin eru ekki aðilar að dómstólnum sem var komið á fót á vettvangi Sameinuðu þjóðanna árið 2002. Alls hafa 123 fullgilt sáttmála um dómstólinn sem hefur lögsögu í alþjóðaglæpum, þar á meðal vegna þjóðarmorða, stríðsglæpa og glæpa gegn mannkyninu. Stórveldi eins og Kína, Indland og Rússland, auk Bandaríkjanna, eru á meðal þeirra ríkja sem standa utan hans.

